Jafnvægi

Í miðju hugmyndafræði Taoista er jafnvægið. Jafnvægi í þeim skilningi að ekkert geti verið án þess að jafnsterk andhverfa þess sé líka. Hugmyndinni er vel lýst í Yin & Yang merkinu sem þú hefur vafalaust séð og velt fyrir þér. Í miðju þess hvíta er hið svarta, í miðju þess svarta er hið hvíta. Saman leika og kljást þessar andstæður á flæðandi mótum sínum og mynda heilan, fullkominn hring.

Þessi hugmynd, eins og flestar hugmyndir sem hafa staðist tímans tönn og lifa enn í hávegum manna þúsundum árum eftir fæðingu sína, hlýtur að vera sönn. Allavega upp að einhverju marki. Þriðja lögmáli Newtons samkvæmt skapar hvert átak eins öflugt gagntak og því má segja að þessi hugmynd sé að minnsta kosti sönn um eðli raunveruleikans. En hún er sönn um margt annað en lögmál alhemisins, heldur má líka sjá sannleika hennar í lögmálum manna og samfélaga í hvívetna. Kona & karl. Kommúnismi & kapitalismi. Sigur og tap. Allt eru þetta hugmyndir sem væru ekki til án andstæðu sinnar.

En dýpt blæbrigðar hugmyndar Taoista um jafnvægi næst ekki fyrr en við áttum okkur raunverulegu innihaldi skilaboða þeirra. Ekki einungis meina þeir að hið góða og illa sé til, heldur að þau séu tengd órjúfanlegum böndum sem gera þeim ómögulegt fyrir að að vera til eitt og sér. Að hinu góða fylgi óneitanlega hið illa, og að í hinu illa búi óneitanlega hið góða. Að ekkert sé annaðhvort eða, og allt sé bæði.

Heimsmynd vestrænna búa byggist á því að öll séum við annaðhvort þetta eða hitt. Hægri eða vinstri. Kona eða karl. Sigurvegarar eða taparar. Um leið og við töpum okkur í því svarthvíta viðhorfi, missum við sjónar á því sem er raunverulega satt - að ekkert okkar, engin hugmynd, stefna eða ákvörðun sé annaðhvort góð eða vond. Í öllu má finna bæði.