Af hverju blogga?

Þessari spurningu get ég skipt niður í tvær einfaldari spurningar.

  1. Af hverju vil ég skrifa?
  2. Af hverju vil ég deila skrifunum mínum?

Svarið við fyrstu spurningunni er mér augljóst.

Í um þrjú ár hef ég skrifað á (næstum) hverjum morgni. Ég tek mér ekki langan tíma í það, oftast ekki nema 10-15 mínútur. Ég skrifa ekki um neitt sérstakt. Bara um daginn sem lauk í gær og þann sem framundan er.

Ég útskrifast úr morgunskrifunum með beittari hugmynd um hvar ég ætla að beita mér. Ég lifi dögum sem fylgja skrifum af ásettu ráði. Þegar einu tímabili dagsins líkur hef ég þegar ákveðið í skrifum mínum hvað mun taka við. Ég hef þegar tekið ákvörðun þegar lífið gefur mér valkosti.

Án skrifa rigna yfir mig spurningar yfir daginn. Að hverju á ég að vinna? Ætla ég að æfa? Hvað á ég að borða? Hvenær ætla ég að vera búinn að vinna? O.s.frv. Ef þessar ákvarðanir eru teknar í hita dagsins geri ég oftar mistök. Án skrifa eru meiri líkur á að ég horfi til baka yfir daginn og verði svekktur með það sem ég gerði og þá manneskju sem ég var.

Ég held það sama eigi við um lífið og á við um daginn einn og sér. Án þess að hugsa fyrir því fyrirfram hvernig ég ætla að lifa lífinu, fer ég í gegnum það af óásettu ráði. Líklegri til að gera mistök. Líklegri til að horfa til baka yfir lífið og verða svekktur með það sem ég gerði og þá manneskju sem ég var.

Og þar sem eina tólið sem ég þekki til að kortleggja bæði dag og líf eru skrif, þá skrifa ég.

Ég skrifa um dag hvern til að takast á við hann og upplifa af ásettu ráði. Ég skrifa um allt annað í mínu lífi af sömu ástæðu. Hvernig ætti ég annars að vita hvernig ég ætla að bæta samböndin mín við fjölskyldumeðlimi, hvað sé mikilvægast fyrir mig að einbeita mér að og hvaða strategía liggur að baki Noona?

Án þess að skrifa um málefni eru skoðanir mínar alvarlega óúthugsaðar. Án þess að skrifa um mismunandi sjónarhorn tek ég ákvarðanir í blindni. Án skrifa væri raunveruleikinn óskýr fyrir mér. Án skrifa væri ég týndur.

Með skrifum er ég líka týndur, en kannski aðeins minna týndur.

Sem færir mig að seinni spurningunni. Hvers vegna held ég ekki bara áfram að skrifa fyrir sjálfan mig?

Hvers vegna þarf ég að deila skrifunum?

Ég þarf þess að sjálfsögðu ekki, en það heillar mig af mörgum ástæðum.

Í fyrsta lagi langar mig að skrifa betur

Ég get ímyndað mér að það sem ég upplifi við að skrifa sé það sama og tónlistarmaður upplifir við að spila á hljóðfæri. Orðin sem ég nota eru nótur og með þeim reyni ég að búa til lítið lag. Mig langar að verða betri í að búa til orðatónlist, og það gerist aldrei ef öll skrifin mín eru á bak við luktar dyr. Ég þarf endurgjöf.

Ef mér tekst að verða (mjög mikið) betri, þá - alveg eins og það býr í tónlistafólki að vilja búa til fallega tónlist og spila hana fyrir aðra - býr vilji innra með mér fyrir því að skrifa eitthvað fallegt og deila því.

Í öðru lagi langar að sigrast á hræðslu og minnimáttarkennd og þora að deila því sem ég skrifa.

Skrif eru persónuleg. Þau eru framlenging af því hvernig ég hugsa og hver ég er. Að deila þeim á almannafæri berskjaldar mig. Litli djöfullinn sem býr á öxlinni minni reynir að nýta sér þá staðreynd til að sannfæra mig um að deila ekki skrifunum mínum. Hann segir mér að ég muni gera mig að fífli og ég hafi ekkert að segja sem er þess virði að deila.

Hann kann að hafa rétt fyrir sér. En ég vil sýna sjálfum mér að ég get gert það sem mig langar, sama hvað axlardjöfullinn minn segir. Ég vil sýna mér að það er í lagi að gera tilraun, og að það sé í lagi ef hún gengur ekki upp. Ég vil sýna sjálfum mér að það er allt í góðu að vera berskjaldaður, og það sé allt í góðu að gera sig að fífli.

Í versta falli gef ég vinum mínum skotfæri sem þeir munu nota til að gera grín að mér. Verri hlutir hafa gerst.

Í þriðja lagi þá langar mig að tjá mig betur

Líkt og að landakort sýnir ekki landslagið sem það reynir að lýsa, geta skrif ekki lýst raunveruleikanum eins og hann birtist manni. Að finna akkúrat það sem manni langar að segja er því líklega ekki hægt. En að skrifa er eins nálægt því og maður kemst að tjá nákvæmlega það sem manni langar.

Að tjá sig í skrifuðu máli er... öðruvísi. Það er næstum því of nákvæmt. Maður fær allan tímann í heiminum til að finna akkúrat það sem manni langar að segja og vanda það hvernig manni langar að segja það. Það er enginn sem bíður hinum meginn við þetta tjáningarform, eins og í spjalli til dæmis.

Það er margt annað sem spilar inn í ákvörðun mína að byrja þetta blogg

Að skrifa skýrt er það sama og að hugsa skýrt. Með því að bæta mig í skrifum bæti ég mig í að hugsa sömuleiðis. Í gegnum skrifin munu foreldrar mínir, systur og vinir kynnast mér betur. Og hver veit nema ég muni muni eignast vin í gegnum þetta blogg sem ég hefði annars aldrei kynnst. Ég væri svo sannarlega opinn fyrir því að vera einum vini ríkari.

Ég hlakka til að vera með vetvang til að reyna að tjá mig nákvæmlega. Ég hlakka til að deila nákvæmlega því sem ég er að hugsa, og gera þær hugsanir betri með hjálp þeirra sem gera mér þann greiða að verja tíma sínum að lesa þetta.

Ef það ert þú, þá takk kærlega fyrir.

Auka

Ef þú hefur áhuga á því hvernig daglegu skrifin mín líta út, þá má hér finna óbreytt, valinn skrif. Þau voru einkum valin vegna þess um hvað ég byrjaði að skrifa þennan daginn.

Skrif hefjast:

8. Október

Jæja, velkominn í þín daglegu skrif. Þar sem útlínur dagsins skerpast. Héðan fær hugurinn rýmdina til að kafa á dýptina seinna meir, þegar hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvað hann eigi að gera.

Ég held áfram ótrauður í vinnunni minni í ráðningarmálum. Mig langar að breyta Hiring-boardinu örlítið. Vera bara með page fyrir hvert starfsgildi og vonandi læra á templates í gegnum þær æfingar. Það ætti að vera hægt að smella á "+nýtt starfsgildi" og búa til síðu sem inniheldur allar þær upplýsingar sem við myndum vilja að væri fyllt upp í áður en farið er í að leita ásamt nauðsynlegu skipulagi í kringum þær ráðningar. Það er bæði skalanlegra og skýrara.

Annars er fimmtudagur, og fimmtudegi samkvæmt á þróunarklúbburinn að fá sinn vikulega skammt af pósti. Í dag verður það að sjálfsögðu Covid tengt, og langar mig líklega að fá fólk til að commenta hvað þau gerðu seinast þegar lokaði til að gefa öllum hugmynd um hvað væri sniðugt sem hægt væri að gera í þessu umhverfi.

Í kjölfarið af þeim pósti hefði ég líka áhuga á að tékka hvort fólk hefði áhuga á því að koma á Webinar um Tímatal POS. Gæti verið mjög skemmtileg leið til að prófa Webinars, sem ég held að gæti orðið brilliant leið til að upsella fólki vörurnar okkar.