Ákvörðun gegn skóla & með lærdómi

Ég var svo hræddur við að láta mömmu vita þegar ég hætti í skóla að ég ákvað ég að skrifa henni bréf frekar en að segja henni það í persónu. Þetta er bréfið.

Sjaldan, yfir ævina, fær maður tækifæri til þess að synda á móti stramnum. Að berjast fyrir, og haga sér eftir því sem manni finnst rétt óháð "the status quo". Að standa með sjálfum sér, og taka ákvarðanir sem byggðar eru á eigin skilgreiningum um árangur og hvað sé rétt.

Og það er nákvæmlega það sem ég tel mig vera að gera með því að taka þá ákvörðun að ljúka skólagöngu minni fyrir fullt og allt. Þetta er ákvörðun sem ég tek ekki léttilega. Ég ber mikla virðingu fyrir menntastofnuninni og því sem hún gefur samfélagi og einstaklingum. Ég vona að þú vitir að ég skil vel hverju ég er að fórna. En það er nákvæmlega í fórninni þar sem dyggðin á bak við þessa ákvörðun liggur.

Það er auðvelt að gefa sér þá staðreynd að háskólamenntað fólk séu bæði hamingjusamasta og efnaðasta fólkið að jafnaði í heiminum. Ástæðan fyrir því er nokkuð einföld, en samfélag okkar metur sérþekkingu mikils og háskólinn er eina stofunin með valdið til þess að merkja fólk með sérþekkingu-stimplum. "Til hamingju, nú ert þú orðinn X-fræðingur" stendur á plöggum einstaklinga sem útskrifast með gráðuna miklu. Og vegna hennar öðlast fólk öryggi í formi atvinnu, lúxus sem aðeins þeir heppnu eignast.

En gráðan er ekki ástæða skólagöngu, heldur ætti maður að leita þangað til að finna þekkingu og lærdóm. Ég væri að ljúga að sjálfum mér ef ég myndi halda því fram að lærdómurinn sem finna má í skólanum væri helsta ástæða þess að ég myndi þangað leita. Ekki vegna þess að lærdóm má þar ekki finna, heldur aðallega vegna þess að hann er bæði ekki eins verðmætur né eins mikill og sá lærdómur sem ég fæ úr minni eigin vinnu.

Og því, þegar ég spyr mig hvers vegna á ég að fara í skóla núna, þá er gráðan stærsta ástæðan. Að hafa hana sem einhverskonar "plan b" ef allt skyldi fara til fjandans. Að fá samþykkingarstimpilinn frá menntastofnuninni og vera með í straumnum (ekki að það sé eitthvað að því).

En ef maður fer í skóla í þeim eina tilgangi að eignast gráðu, er maður þar á vitlausum forsendum. Að fara í skóla til þess að fá gráðu er eins og þiggja starfsttilboði til að fá fínan titil eða há laun. Líf sem er byggt á slíkum ákvörðunum er án meiningar, og það er ekki lífið sem ég vil lifa.

Þarf ég Plan b?

Hvað væri plan b'ið sem ég myndi fá frá gráðunni minni? Það eina sem hægt er að gera við gráðu er að fara í mastersnám eða sækja vinnu.

Með núverandi árangri Tímatals og Noona hef ég enga trú á því að gráðan myndi hjálpa mér meira en núverandi starf í því að finna vinnu. Í fyrsta lagi vegna þess að margir vinir mínir, með sömu gráðu og ég myndi vera að reyna að næla mér í, eru atvinnulausir. Í öðru lagi vegna þess að ég myndi ekki vilja sækja um þær vinnur sem bestu verkfræðingarnir hafa náð að næla sér í, hjá bönkum eða stórum fyrirtækjum. Í þriðja lagi vegna þess að gráðan mun ekki hjálpa mér að komast að í þeim vinnum sem ég myndi sækja um, sem væri hjá sprotafyrirtækjum sem eru tilturlega lengra komin en mitt eigið. Ég veit að þau myndu frekar horfa á árangur minn heldur en gráðuna, og því tel ég að vinnan og áframhaldandi uppbygging á Tímatal sem vænlegra til árangurs þegar kemur að því að búa til vinnutækifæri fyrir mig í framtíðinni. Sérstaklega þegar horft er til þess að vegna vinnunnar höfum við hitt yfirmenn hjá mörgum að stærstu tæknifyrirtækjum landsins sem ég veit að myndu gera mikið til að ráða mig í vinnu.

Það færir okkur að mastersgráðu. Það er aðallega þar sem ég finn fyrir missi, og er það raunverulega fórnin sem ég er að færa. En lífið er stútfullt af fórnarkostnaði og þeim raunveruleika þurfum við öll að mæta. Og ef ég myndi vilja sækja áframhaldandi nám, þá er hægt að gera það á milljón mismunandi vegu án þess að fara í master. Heimurinn er troðfullur af námskeiðum og prógrömmum, sum hver meira að segja innan háskóla, sem ég gæti komist inn í án BS gráðu. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að ég gæti komist í masters-nám ef árangurinn heldur áfram að bæta ofan á sig hjá Tímatal.

Mergur málsins

Allt það sem ég hef skrifað skiptir engu máli, ef mínar innri forsendur eru ekki réttar. Og það er hér sem ég vonast til að vinna þig yfir á mitt band fyrir fullt og allt.

Því raunveruleikinn er sá að ég er að ná meiri árangri í lífinu nú, en ég þorði að vona að ég gæti. Þessi árangur er ekki efnislegur, heldur snýr frekar að lífsgæðum. Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur. Það sem ég geri á hverjum degi veitir mér djúpa lífsfyllingu, og ég er svo heppinn að fá að gera það með mínum allra bestu vinum. Ég er frjáls til að gera hvað sem er og hvenær sem er. Ég hef aldrei verið jafn skapandi, og liðið jafn vel.

Vegna þess að mér líður svo vel, hefur mér tekist að taka til í mínu innra lífi. Ég finn fyrir meiri frið, ást og gleði en ég hef nokkurn tímann gert. Samböndin mín eru dýpri og þýðingarmeiri fyrir vikið. Ég er í fullkominni stjórn á hverjum tímapunkti fyrir sig. Ég finn að ég er bæði að vaxa, og að blómstra. Ég veit að þú tekur eftir því.

Og þetta er hringrás. Vegna betri sambanda líður mér vel. Vegna þess að mér líður vel er pláss fyrir vöxt. Vöxturinn veitir mér djúpa lífsfyllingu. Lífsfyllingin færir mér frið. Friðurinn gerir mér kleyft að rækta betri sambönd. Líf mitt er í fullkomnu jafnvægi.

Og sama hvað gerist í hinum efnislega heimi, eða inni á bankareikning mínum, þá er þetta lífið sem ég vil lifa. Á hverjum degi geri ég það sem ég mig langar líka að gera í framtíðinni. Á hverjum degi er ég að verða betri í því. Ég hef fundið köllun mína, tilgang, hlutverk og ástríðu. Að skapa vörur sem leysa raunveruleg vandamál í lífi fólks. Að hugsa, skrifa, hlusta og tala við fólk sem ég elska og treysti.

Ég get ekki ímyndað mér betra líf en það sem ég lifi nú. Mig langar að leggja allt í sölurnar til þess að það líf haldi áfram. Mig langar að halda áfram að elta drauminn minn.

Fórnin að hætta í skóla mikil, en hún er þess virði. Ef þetta eru mistök, þá er það lexía sem ég mun glaður deila með börnunum mínum. Ef ekki, ef mér tekst að lifa því lífi sem ég geri nú þar til ég dey, þá verður það mikilvægasta lexían sem ég mun deila með börnunum mínum.

Ég er að taka mjög stóra stöðu gegn því sem eðlilegt þykir. En ég geri það sem ég geri því ég held að það sé rétt. Ég er að standa með sjálfum mér og veðja á mig.

Ég hef trú á því að ég geti gert þetta. Ég vona að þú gerir það líka. Ég vona að ég sé ekki að valda þér neinum vonbrigðum, eða að þú finnir fyrir minna trausti eða stolti gagnvart mér fyrir vikið. Ég geri það sem ég geri því ég tel það vera það rétta í stöðunni. Ég ætlast ekki til að þú sért sammála, en ég ætlast til að þú skiljir og berir virðingu fyrir þessari ákvörðun minni

Ég elska þig.

Þinn Jón Hilmar