Okkar stærsta verkefni

-

Fyrst þú ert að lesa þetta, lifir þú að öllum líkindum í allsnægt. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því hvaðan næsta máltíð kemur. Þú veist alltaf hvar rúmið þitt er þegar þreytan dregur að, hlýtt og notalegt bíður það, með traustu þaki fyrir ofan sig og vinalegan glugga til hægri sem lætur þig kurteisislega vita þegar rigningin dynur fyrir utan.

Þetta var ekki alltaf svona. Hinn frumstæði maður þurfti að vinna fyrir hverjum bita, hverjum sopa. Hann svaf kaldur í tættu tjaldi, í sífelldri hræðslu við rándýr eða fótbrot - enda var slíkt dauðadómur á árum áður.

En þrátt fyrir þau lífsgæði sem samfélagið bíður upp á, flýtur yfir samfélagið alda af vanlíðan. Þunglyndi er eitt okkar stærsta vandamál, og sjálfsvíg verða algengari og algengari, sérstaklega meðal yngri kynslóðarinnar. Á sama tíma voru bæði þessi fyrirbæri nær óþekkjanleg meðal þeirra sem bjuggu við stöðugan ótta við dauðan (eftir því sem við best vitum).

Hvernig má það vera? Ætti ekki að draga úr vanlíðan eftir því sem lífsgæði aukast? Hvernig stendur á því að þú, með allt til alls, sért líklegri til að þú geta ekki meir af lífinu heldur en sama vera með ekki neitt? Hvers vegna endaði hinn frumstæði maður ekki líf sitt og linnaði þjáningum sínum, og hvers vegna vitum við öll af einhverjum sem hefur gert það?

- -

Fyrir utan líffræðina er fátt sem við deilum með hinum frumstæða manni, enda eru lifnaðarhættir okkar gerólíkir. Það má því lengi deila um hvað það var við líf forvera okkar sem forðaði þeim frá þunglyndi og sjálfsvígum sem okkur skortir í dag.

Frá mínu sjónarhorni, stendur þó eitt upp úr: Mismunurinn á því hve sterkan og tæran tilgang hinn frumstæði maður upplifði fyrir tilveru sinni samanborið við einstaklinga nútímans.

Tilgangur hvers dags, hverrar stundar, var hinum frumstæða manni augljós. Hann þurfti að lifa af. Hann þurfti að sjá til þess að börnin sín, maki, foreldrar, frændfólk, vinir og börnin þeirra myndu lifa af. Slíkt var hið verðuga verkefni sem hélt hinum frumstæða manni gangandi á hverjum degi, og tók þar með sjálfsvíg úr myndinni - þrátt fyrir þá þjáningu og sorg sem var óneitanlegur hluti af lífinu á sléttunni. Tilgangurinn, og sú lífsfylling sem honum fylgir, var náttúrulegur fylgikvilli þeirra frumstæðu aðstæðna sem hinn frumstæði maður var fjötraður í.

Fyrir tilstilli alls þess góða sem samfélagið hefur veitt okkur hefur það óafvitandi tekið frá okkur þennan augljósa tilgang fyrir tilvist okkar. Við þurfum ekki lengur að berjast til þess að lifa af. Foreldrar okkar, vinir, makar og frændfólk þurfa ekki á okkur að halda til að lifa af. Ef við erum svöng getum við pantað pizzu. Ef það er kalt förum við bara inn. Samfélagið hefur leyst helstu vandamálin sem voru áður fyrr okkar stærsta uppspretta af tilgangi, vandamálin sem við lifðum til að leysa fyrir alla þá sem stóðu okkur næst.

Ég er ekki að segja að ég myndi heldur vilja lifa á sléttunum frekar en í þægindum nútímans, þó svo að líf forvera okkar sé mér forvitnilegt. Ég kann að meta allsnægtina, og finnst heldur þægilegt að geta slakað á í mjúku rúmi þegar rigningin bankar vinalega á gluggann á minni hægri hönd.

Öllu heldur þýðir þetta einungis að okkur er falið verkefni sem hinn frumstæði maður glímdi ekki við.

Við þurfum að skapa okkar eigin tilgang.